Ég styð ljósmæður.

Þetta er stétt sem styður, aðstoðar, veitir sáluhjálp, grípur inn í ef eitthvað bjátar á og veitir fæðingarhjálp.
Nú í aðdraganda sauðburðar getur maður ekki annað en leitt hugann að litlu lömbunum sem stíga sín fyrstu skref undir handleiðslu sér eldri kinda. Ungviðið leikur sér og í leiknum lærir það og þróar með sér hæfileika fyrir framtíðina.
Pólitískur meðgöngutími er yfirleitt styttri en meðgöngutími sauðfjár sem er 143 dagar. Á það sérstaklega við þegar framboðin eru margfeðra.
Á vef hedinsfjardar.is kemur fram að kynna eigi framboð 15. apríl. En að hugsanlega yrði það eitthvað seinna.
Einn íbúi Ólafsfjarðar sem jafnframt hefur verið orðaður við þriðja sætið á nýjum lista Óháðra (Innskot blaðamanns: Listinn hefur ekki fengið nafn)  sagði við mig “sumardagurinn fyrsti er góður dagur” þegar hann var inntur eftir fréttum af framboðinu og hvenær það yrði kynnt.
Nú hef ég ekki persónulega reynslu af því að vera í fæðingarhríðum, en var viðstaddur fæðingu barna minna. Löng fæðing tekur mikið á og stundum þarf inngrip ljósmæðra og eða fæðingarlækna.
Ekki get ég borið saman eiginlegar fæðingarhríðir og pólitískar en þykist vita að þær taki á. Hvor á sinn hátt.
Því spyr ég af einskærri umhyggju og velvild:
Er búið að sóna forystusauðinn?
Ef svo er.
Hvursu mörg lömb er um að ræða?
Er þörf á sérhæfðri aðstoð?

Kveðja, eini fulltrúi dreifbýlisins í framboði. 🙂
Tómas Atli Einarsson, Sjálfstæðisflokknum Fjallabyggð