Aðeins Dalvíkingar óánægðir með strætó

Sigurður Valur Ásbjörnsson, formaður nefndar Eyþings um almenningssamgöngur á Norðausturlandi og bæjarstjóri Fjallabyggðar, segir í viðtali við Rúv að almenn ánægja ríki með nýja strætóáætlun fyrir Norðurland. Fundað verður í næstu viku til að reyna að koma til móts við kvartanir Dalvíkinga.

Í gær tók gildi ný áætlun í almenningssamgöngum um Norður- og Norðausturland. Eyþing, samband sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, hefur nú umsjón með almenningssamgöngum á svæðinu en nýja áætlunin er unnin í samstarfi við Strætó.

Sigurður Valur Ásbjörnsson segir að leita þurfi leiða til að bæta þjónustuna án þess að það kosti of mikið. „Það sem við stöndum frammi fyrir er einfaldlega það að við höfðum ákveðið fjármagn frá ríkinu til að taka upp og stjórna þessum almenningssamgöngum og ætlunin var að reyna að setja upp kerfi sem myndi þjóna sem flestum og áætlunin verður bara endurskoðuð með tilliti til þessara þátta.“

Sigurður segir að ekki hafi borið á óánægju hjá öðrum en Dalvíkingum en nýja áætlunin tengir saman helstu byggðir á Norðausturlandi. Ekið er frá Siglufirði til Akureyrar – og þaðan annars vegar til Egilsstaða og hins vegar til Þórshafnar með viðkomu í bæjum og þorpum á leiðinni.

Heimild: ruv.is