Aðalheiður sýnir í Alþýðuhúsinu

Laugardaginn 28. nóvember kl. 14.00 opnar Aðalheiður S. Eysteinsdóttir sýningu í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Þetta er árlegur viðburður hjá Aðalheiði sem ávallt sýnir það nýjasta sem hún er að fást við í list sinni og hefur um leið opið í anddyrinu þar sem sjá má ýmis smáverk sem ratað gætu í jólapakka.

Aðalheiður er athafnasamur myndlistamaður sem einnig miðlar listum annara listamanna og menningu ýmiskonar í Alþýðuhúsinu. Hún hefur vakið athygli fyrir tréskúlptúra sína á undanförnum 20 árum, en einnig lágmyndir, innsetningar og gjörninga. Nú eftir að hafa starfað að myndlist síðan 1993 hafa aðferðir og hugmyndir náð heilum hring, og má nú merkja samsvörun við fyrri tíma í verkum hennar. Á sýningunni í Kompunni leggur Aðalheiður áherslu á flæði lita og samtal við efnið sem málað er á. Aðalheiður hefur hlotið ýmsar viðurkenningar og styrki fyrir eigið liststarf, meðal annars menningarverðlaun DV og viðurkenningar frá Eyrarrósinni fyrir starfið í Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Verk hennar eru sýnileg víða um samfélagið t.d. á Iceland air hótelunum í þjóðarbókhlöðunni, í Hofi á Akureyri og á Síldarminjasafninu á Siglufirði. Aðalheiður býr og starfar í Alþýðuhúsinu á Siglufirði og er sýningin opin daglega frá kl. 14.00 – 17.00 til jóla.

Vegna aðstæðna í samfélaginu eru gestir beðnir um að vera með grímur, spritta hendur og aðeins geta 4 til 5 verið inni í einu.

Texti og mynd: Fréttatilkynning.