Ábendingar um ranga sorphirðu í Fjallabyggð

Íbúar í Fjallabyggð hafa sent Gunnari Inga Birgissyni, bæjarstjóra Fjallabyggðar, ábendingar um að sorpið sem íbúar hafa flokkað í þrjár tunnur sé allt losað í sama sorphirðubílinn en sérstakt sorphirðudagatal í Fjallabyggð segir til um hvaða tunnu eigi að losa hverju sinni. Sé þetta að gerast þá hefur þetta í för með sér aukinn kostnað Fjallabyggðar vegna aukins flutningskostnaðar og kostnaðar við sorpurðun. Þetta stríðir á móti þeim markmiðum sem bæjarfélagið hefur sett sér í umhverfismálum. Fjallabyggð mun hafa samband við forsvarsmenn Íslenska gámafélagsins sem sér um sorphirðu í Fjallabyggð og fá nánari útskýringar á ábendingum íbúa Fjallabyggðar.

Þann 1. desember árið 2009 hófst flokkun sorps á heimilum í Fjallabyggð. Markmiðið með flokkuninni er að uppfylla kröfur um úrbætur í umhverfismálum og bæta þjónustu við íbúa. Öll heimili munu flokka í þrjár tunnur, almennt sorp fer í gráa tunnu, endurvinnanlegt sorp í græna tunnu og lífrænt sorp í brúna tunnu. Lífræna sorpið verður jarðgert og endurvinnsla verður stóraukin.