Abbý sýnir í Ráðhúsi Fjallabyggðar

Arnfinna Björnsdóttir, bæjarlistamaður Fjallabyggðar opnar yfirlitssýningu á verkum sínum í Ráðhúsi Fjallabyggðar, dagana 20. og 21. maí frá kl. 14:00-17:00.

Abbý hefur fengist við listir og handverk í 55 ár á Siglufirði. Draumur hennar á yngri árum var að fara í listnám en örlögin leiddu hana í Verslunarskólann og í framhaldi af því í skrifstofuvinnu fyrir Siglufjarðarkaupstað og gegndi hún því starfi í 35 ár. Í gegnum tíðina hefur Arnfinna sótt ýmis námskeið á sviði lista undir leiðsögn Örlygs Kristfinnssonar og Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur. Frá því hún hætti störfum hjá Siglufjarðarkaupstað, síðastliðin 15 ár, hefur hún einbeitt sér að listinni. Hún heldur vinnustofu á Siglufirði þar sem hún vinnur daglega að verkum sínum og hefur opið almenningi.