Áætlunarflug hafið til Sauðárkróks

Í gær lenti fyrsta áætlunarvélin á Sauðárkróki eftir nokkurra ára hlé. Það ríkti gleði í flugstöð Alexandersflugvallar þegar beðið var eftir vélinni sem lenti kl. 13:40 í gær, þann 1. desember. Isavia bauð upp á kaffi og veitingar og sagðist Hjördís Þórhallsdóttir, umdæmisstjóri Isavia á Norðurlandi, fagna því að byrjað væri að fljúga á Sauðákrók á ný og lýsti yfir ánægju með samstarf allra þeirra aðila sem að fluginu standa.

Sigríður Svavarsdóttir, forseti sveitarstjórnar sagðist einnig fagna þessum tímamótum og vonast til að flugið sé komið til að vera. Sigríður sagði að flugið væri sérstaklega mikið gleðiefni fyrir Skagfirðinga en auk þess gætu falist í því tækifæri fyrir ferðamenn sem vilja sækja Skagafjörð heim, ekki síst yfir vetrarmánuðina.

Hörður Guðmundsson lýsti yfir ánægju sinni með að Ernir væru byrjaðir að fljúga á Sauðárkrók og hvatti fólk til að nýta sér flugið. Hann nefndi í ræðu sinni að þó að einn farþegi færi með vélinni kæmu um 20 starfsmenn í hinum ýmsu störfum að því að koma viðkomandi á milli staða. Verkefnið er tilraunaverkefni til sex mánaða en Hörður sagðist vonast til þess að áætlunarflugið myndi ganga vel um ókomin ár.

Fyrirtæki, félagasamtök og stofnanir á Norðurlandi vestra hafa mörg hver tekið vel í að styrkja verkefnið með kaupum á miðum eða niðurgreiðslu til félagsmanna sinna.

Til að byrja með verður flogið fjórum sinnum í viku, eitt flug á föstudögum, eitt á mánudögum og tvö flug á þriðjudögum.

Heimild og myndir: skagafjordur.is.