Á fjórða tug starfsmanna SAK í einangrun eða sóttkví

Á fjórða tug starfsmanna Sjúkrahússins á Akureyri er fjarverandi vegna einangrunar eða sóttkvíar. Miðað við stöðuna og þróunina að undanförnu má búast við frekari fjölgun í þeim hópi á næstunni.

Núna eru það ekki alvarleg veikindi inniliggjandi Covid-19 sjúklinga sem er aðaláhyggjuefnið heldur það hve mikill fjöldi starfsmanna sjúkrahússins mun lenda í sóttkví eða einangrun á hverjum tíma, með tilheyrandi áhrifum á þjónustu og rekstur sjúkrahússins.

Hingað til hefur með samstilltu átaki tekist að vinna úr þeirri stöðu sem manneklan skapar á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Starfsfólk hefur færst á milli eininga og tekist á við þær áskoranir sem í því felast að koma inn í nýjar aðstæður og fást við ný verkefni.