Kostnaður við snjómokstur hjá Akureyrarbæ árið 2012 var um 90 milljónir króna og fór um 30 milljónir fram úr áætlun það árið. Dýrustu mánuðirnir voru nóvember og desember en þeir kostuðu um 27 milljónir hvor. Þrjú síðustu ár hafa verið afar kostnaðarsöm í snjómokstri hjá Akureyrarbæ.

Uppreiknað á verðlagi fyrir október 2012 var kostnaður árið 2011 rúmar 75 miljónir króna, 85 milljónir árið 2010 en tæpar 70 miljónir árið 2009. Árið 2008 var aftur á móti langdýrast. Þá nam kostnaður rúmum 100 miljónum króna uppreiknað.

Notuð voru um 340 tonn af hálkuvarnarefni á götur og gangstéttar árið 2012, um 300 tonn af saltblönduðum sandi og 40 tonn af hreinu salti. Langmest var notað af sandi í janúar eða 288 tonn sem sótt voru í 85 ferðum.

Þetta kemur fram á heimasíðu Akureyrarbæjar, www.akureyri.is