Hamar – KF og rútuferð á leikinn

Þá er komið að loka leik sumarsins hjá meistaraflokki KF en hann fer fram á Grýluvellinum í Hveragerði laugardaginn 22. september klukkan 14:00.

Í undanförnum leikjum sem leiknir hafa verið í Reykjavík eða í nágrenni við höfuðborgina hafa strákarnir fengið gríðarlega góðan stuðning og í þessum leik má ekkert annað vera uppi á teningnum.

Við hvetjum alla til þess að skella sér smá rúnt til Hveragerðis á þennan sannkallaða stórleik og styðja rækilega við bakið á strákunum. Árangur þeirra í sumar hefur verið virkilega góður og því biðlum við til áhorfenda að fjölmenna á völlinn, fylla bílana, hringja í vini og ættingja og ekki skilja neinn eftir.

Klukkan 07:00 fer rúta af stað frá Fjallabyggð með nokkuð stóran hóp stuðningsmanna og er áætlað að hún lendi í Hveragerði á milli 13:00 og 14:00. Ef við fáum sömu mætingu frá stuðningsmönnum búsettum á höfuðborgarsvæðinu og til dæmis í leikinn á móti HK þá verður þetta glæsilegt.

Það eru nú aðeins 4 sæti laus í sætaferðina sem á að fara úr Fjallabyggð suður. Þannig að það fer hver að verða síðastur að skrá sig, möguleikinn að sjá KF fara upp um deild hefur ekki gerst áður í annars frekar stuttri sögu KF. Koma svo stuðningsmenn KF, látið þetta tækifæri ekki fram hjá ykkur fara það verður stuð í rútunni.

Koma svo stuðningsmenn KF! Allir á völlinn!

Texti: Innsent / KFbolti.is