80 missa vinnuna á Húsavík

Samfélagið í Norðurþingi upplifir nú alvarlega birtingarmynd covid-19 faraldursins með þeirri tímabundnu lokun kísilmálmverksmiðju PCC BakkiSilicon hf sem tilkynnt var um fyrr í dag.

Í fréttatilkynningu segir að félagið hafi leitað allra leiða til að halda framleiðslunni gangandi við þessar aðstæður, en vegna þeirrar óvissu sem uppi er í heimshagkerfinu vegna Covid-19 þarf að grípa til tímabundinnar stöðvunar á framleiðslu.

Í júlílok verður því slökkt á báðum ofnum verksmiðjunnar. Starfsmenn og trúnaðarmenn þeirra hafa verið upplýstir um þessa ákvörðun og vegna hennar þarf að segja upp stórum hluta starfsfólks. Þetta eru tímabundnar aðgerðir og félagið gerir ráð fyrir að endurráða starfsfólk aftur þegar framleiðslan fer aftur af stað.

Á meðan slökkt er á ofnunum mun félagið sinna viðhaldi og endurbótum á hreinsivirki verksmiðjunnar sem felur meðal annars í sér að hluti þaksins verður fjarlægður og nýjum tækjabúnaði komið fyrir. Þessari viðhalds- og endurbótavinnu ætti að vera lokið í ágústlok 2020.

Rúnar Sigurpálsson, forstjóri PCC BakkiSilicon hf:

„Það var erfitt að taka þessa ákvörðun og hefðum við fundið raunhæfa leið til að forðast uppsagnir hefðum við farið hana. Ég er hins vegar viss um að heimsmarkaðurinn muni taka við sér að nýju. Þegar það gerist munum við setja uppgerða verksmiðjuna aftur í gang og ráða aftur eins mikið af fólkinu okkar og við getum.“