72 brautskráðir frá FNV

Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki var slitið í 37. sinn við hátíðlega athöfn í dag að viðstöddu fjölmenni. Alls brautskráðust 72 nemendur, flestir af stúdentsprófsbrautum og fisktæknibraut.

Í máli skólameistara, Ingileifar Oddsdóttur, kom m.a. fram að 2.415 nemendur hafa brautskráðst frá skólanum frá upphafi skólahalds haustið 1979. Fram kom að 492 nemendur voru skráðir á haustönn þar af 83 sem eru 25 ára eða eldri og 512 á vorönn þar af 108 sem eru 25 ára eða eldri. Hún lagði áherslu á þjónustuhlutverk skólans gagnvart öllum íbúum Norðurlands vestra óháð aldri og mikilvægi landsbyggðarskóla fyrir þau samfélög sem þeir þjóna. Þetta hlutverk fellur illa að takmörkunum á aðgangi eldri nema að skólanum. Þá greindi hún frá þeim breytingum sem fylgt hafa nýrri námskrá og nýjum námsbrautum á borð við nám í slátraraiðn og fisktækni sem boðið er fram í samvinnu við Fisktækniskóla Íslands og Farskólann, miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra og FISK Seafood, en skólinn hefur frá upphafi lagt mikla áherslu á gott samstarf við atvinnulífið á Norðurlandi vestra.

Alls brautskráðust 72 nemendur af eftirtöldum námsbrautum sem hér segir:

Stúdentsprófsbrautir: 33
Iðnbraut í bifvélavirkjun: 1
Iðnbraut í rafvirkjun: 6
Iðnbraut í vélsmíði: 2
Sjúkraliðabraut: 2
Nýsköpunar og tæknibraut: 2
Kvikmyndagerð: 1
Vélstjórnarbraut A: 5
Vélstjórnarbraut B: 1
Slátrarabraut: 3
Fistæknibraut: 18

13325544_1121347404575506_5924109871712564244_n