70 ár frá flugslysinu í Héðinsfirði
Aldrei hafa jafnmargir Íslendingar látist í einu flugslysi og því sem varð í Héðinsfirði 29. maí 1947. Þá fórst Douglas Dakota flugvél Flugfélags Íslands í snarbröttum hlíðum Hestfjalls, ofan við Vogatorfur. Um borð voru 25 menn, 21 farþegi og 4 í áhöfn.
Douglas vélin, sem jafnan er kölluð Þristurinn, var tekin í notkun fáum mánuðum fyrir slysið. Hún var í venjubundnu áætlunarflugi milli Reykjavíkur og Akureyrar. Vélin hóf sig til flugs frá Reykjavíkurflugvelli skömmu fyrir hádegi og var áætluð lending á Melgerðismelum um einni og hálfri klukkustund síðar.
Síðast sást til vélarinnar þar sem henni var flogið fyrir Siglunes, milli Siglufjarðar og Héðinsfjarðar. Nokkur byggð var á þeim tíma á Siglunesi og Reyðará. Var vélinni flogið mjög lágt yfir sjónum og horfðu íbúar sem úti voru á eftir vélinni þar til hún hvarf þeim sjónum inn í þoku skammt austan við Landsendann, milli skerjanna Korna og Stokksskers.
Þegar vélin kom ekki til lendingar á áætluðum tíma og ekkert loftskeytasamband hafði verið við hana frá því er hún kom niður í Skagafjörð greip um sig ótti um afdrif hennar. Var þegar farið að svipast um eftir henni og gera ráðstafanir varðandi leit. Svarta þoka var við utanverðan Eyjafjörð og bar leit engan árangur. Árla næsta morguns fóru þrjár flugvélar frá Reykjavíkurflugvelli til leitar og fundu leiðangursmenn einnar þeirrar flak vélarinnar í Hestfjalli.
Björgunarleiðangrar fóru þegar af stað meðal annars á bátunum Agli EA frá Ólafsfirði og Hjalta SI frá Siglufirði. Aðstæður voru afar erfiðar því haugabrim var við mjög klettótta ströndina. Björgunarmenn réru á árabátum að landi og tefldu sjálfir lífi sínu í tvísýnu í þeirri för. Þá tók við ganga upp bratta hlíðina að slysstað. Aðkoman var skelfilegri en orð fá lýst. Flugvélin hafði splundrast við áreksturinn við fjallið og eldur blossað upp. Flugvélarflakið lá á víð og dreif um hlíðina og allir sem um borð voru höfðu látist.
Björgunarmenn bjuggu um hina látnu og fluttu niður í fjöru. Þaðan var róið að bátnum Agli sem flutti líkin til Ólafsfjarðar. Búið var um líkin á börum um borð í vélbátnum Atla EA og þau sveipuð íslenska fánanum áður en siglt var með þau til Akureyrar. Athöfn var við Torfunefsbryggju á Akureyri að kveldi 30. maí þegar þangað var komið. Mikill mannfjöldi tók þátt í athöfninni. Hinum látnu var að henni lokinni ekið á vörubílspöllum frá bryggju og í kapellu Akureyrarkirkju.
Kiwanisklúbburinn Súlur í Ólafsfirði hafði frumkvæði að því að settur var upp minnisvarði í Hestfjalli þegar hálf öld var liðin frá slysinu, sumarið 1997 og var hann formlega vígður við fjölmenna athöfn. Minnisvarðinn er keltneskur kross, um tveggja metra hár og 130 kíló að þyngd. Honum var fundin staður við eina stóra bjargfasta steininn í grasi gróinni hlíð skammt neðan við slysstaðinn.
Fleiri heimildir og myndir má finna hér á síðunni.
Texti: Vegagerðin.is