7 slasaðir eftir hópslys í hoppukastala á Akureyri

Einn hefur verið fluttur til Reykjavíkur með sjúkraflugi eftir slys í hoppukastala við Skautasvellið á Akureyri í dag. Þá eru sex aðrir minna slasaðir og fá aðhlynningu á sjúkrahúsinu á Akureyri.

Hópslysaáætlun var virkjuð kl. 14.15 hjá Lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra þar sem hoppukastali fauk upp á einu horni hans við Skautahöllina á Akureyri með 63 börn að leik inni í honum. Aðgerðastjórn tók strax til starfa og voru viðbragðsaðilar allra eininga fljótir á staðinn.
 Fjöldahjálparstöð var opnuð í Skautahöllinni þar sem Rauði krossinn sinnti áfallahjálp. Aðstandendum var vísað þangað.
Stjórnendur hoppukastalans hyggjast ekki opna hann aftur á Akureyri eftir þetta slys.