552 umsóknum hafnað við Háskólann á Akureyri

Umsóknir um nám við Háskólann á Akureyri fyrir skólaárið 2018/2019 slógu öll fyrri met og var endanleg tala umsókna 2083. Þann 3. júlí síðastliðinn var búið að samþykkja 1531 umsókn en 552 umsækjendum hefur verið synjað eða þeir ekki sent inn fullnægjandi gögn með umsóknum sínum.  Það eru því einungis 74% umsækjenda sem fá boð um skólapláss við Háskólann á Akureyri.  Þetta kemur fram á vef Unak.is.

Endanleg tala um fjölda nemenda sem hefja nám við HA í haust verður ekki ljós fyrr en um miðjan ágúst þegar seinni greiðslufresti lýkur.

Af 552 umsóknum sem ekki hafa verið samþykktar var 286 skilað inn án fullnægjandi gagna en öðrum hefur verið hafnað þar sem viðkomandi hefur ekki uppfyllt kröfur um einingafjölda frá framhaldsskólum, úr verknámsskólum eða öðru námi sem stundað er á framhaldsskólastigi.

Ljósmyndir: Magnús Rúnar Magnússon / Héðinsfjörður.is