50 ár frá því umferð í gegnum Stráka hófst

Í dag eru nákvæmlega 50 ár frá því að Strákagöng við Siglufjörð voru vígð við hátíðlega athöfn. Þennan dag fyrir 50 árum lokuðu Siglfirðingar  verslunum, fóru í sparifötin og drógu fána að húni og tóku á móti fyrstu bifreiðum sem fóru í gegnum Strákagöng. Voru þar á ferð Ingólfur Jónsson, landbúnaðar- og samgöngumálaráðherra, vegamálastjóri, þingmenn og forstöðumenn Efra-Falls sem sáu um gerð ganganna. Bæjarstjórn Siglufjarðar og fjöldi Siglfirðinga tóku á móti þessum fyrstu gestum. Lúðrasveit Siglufjarðar lék nokkur lög og samgöngumálaráðherra hélt ræðu.

Kostnaður við Strákaveg og göngin voru á þessum tíma um 70 milljónir króna, þarf af voru göngin 41 milljón og vegkaflinn vestan við göngin kostaði 29 milljónir.

Árið 1954 var rætt um á Alþingi að leggja veg fyrir Stráka, meðfram sjónum, eða gera göng úr botni Siglufjarðar til Fljóta, og hefðu þau þá orðið um 5 kílómetrar að lengd og mjög dýr, eins og þá var sagt.
Síðar kom fram sú hugmynd að leggja veg úr Fljótum út með ströndinni að Strákum og gera mun styttri og ódýrari göng þar í gegn til Siglufjarðar.
Varð sú leið ofan á og hófst vegagerðin sumarið 1956, þegar fyrsta fjárveiting til verksins kom, og var hún 100.000 kr. Hún gekk þó fremur hægt, bæði vegna fjárskorts og vegna erfiðra aðstæðna en vegurinn liggur víða utan í bröttum fjallshlíðum.

Gerð Strákaganga hófst 1959 og voru þá grafnir um 30 metrar en kraftur var ekki settur í framkvæmdir fyrr en sumarið 1965. Síðasta haftið var sprengt 17. sept 1966 eftir 13 mánaða stanslausa vaktavinnu við gangagröftinn, og göngin voru svo opnuð 10. nóvember 1967. Voru þarna að verki 25 menn sem unnu á þrískiptum vöktum.  Upphaflega áttu þau að vera tvíbreið en frá því var horfið og eru þau einbreið með útskotum.

Mynd: Steingrímur Kristinsson.