Liðin eru 50 ár frá því að Golfklúbbur Ólafsfjarðar var stofnaður, en í dag heitir klúbburinn Golfklúbbur Fjallabyggðar, en nafninu var breytt á aðalfundi í desember árið 2015. Klúbburinn var stofnaður þann 14. janúar árið 1968 en undirbúningur að stofnun félagins var um haustið 1967. Stofnfélagar voru 16, en í fyrstu stjórn félagsins voru:  Þorsteinn Jónsson, formaður, Stefán B. Einarsson, ritari, Hilmar Jóannesson, gjaldkeri.

Aðrir stofnfélagar voru:
Sigurður Guðjónsson, Jón Ásgeirsson, Haraldur Þórðarson, Kristinn Jóhannsson, Ármann Þórðarson, Brynjólfur Sveinsson, Hreggviður Hermannsson, Einar Þórarinsson, Gunnlaugur Magnússon, Ásgeir Ásgeirsson, Stefán B. Ólafsson, Björn Þór Ólafsson og Vigfús S. Gunnlaugsson.

Á upphafsári félagsins var enginn völlur, engin áhöld og lítil kunnátta í golfíþróttinni.  Fljótlega var jörðin Bakki tekin á leigu og Brynjólfur Sveinsson verslunarmaður og póstmeistari, sem var einn af stofnendum klúbbsins, bauðst til þess að útvega kylfur, poka og kerrur og fengu flestir sín fyrstu áhöld hjá honum. Einnig flutti hann til landsins holubotna, flögg og holuskera. Fyrsti völlur félagsins var 6 holur og var á túni Bakka.

Golfklúbbur Akureyrar lét snemma í ljós áhuga á starfseminni og vildu aðstoða á allann hátt, en sá klúbbur var stofnaður árið 1935.  Golfklúbbur Siglufjarðar var stofnaður 1970 og var töluvert samstarf klúbbana á milli með árlegum bæjarkeppnum.

Sumarið 1970 réðust menn í stækkun á golfvelli félagsins og bættu  við 3 brautum.  Á Bakka var klúbburinn í fimm ár, en þá var leigusamningurinn útirunninn. Þetta var árið 1973. Um þessar mundir var jörðin Skeggjabrekka á lausu.  Leyfi fékkst frá bæjaryfirvöldum að flytja starfsemi golfklúbbsins þangað en bærinn átti jörðina á þessum tíma. Hófst þá mikil uppbygging og var teiknaður 9 holu völlur og vallarhús byggt upp.

Texti: Byggt á pistli eftir Hilmar Jóhannesson, fyrsta gjaldkera félagsins.