5.flokkur KF vann Dalvík

5. flokkur karla tók á móti Dalvík 31. maí á Siglufjarðarvelli í blanka logni og sólskini. Það var kraftur í báðum liðum og skiptust þau á að sækja markanna á milli. KF komst yfir í fyrri hálfleik og var staðan 2-0 fyrir heimamenn.

Í seinni hálfleik sóttu Dalvíkingar af miklum móð og uppskáru mark, staðan því orðin 2-1 og bæði lið að spila frábæran fótbolta. KF komst síðan í 3-1 og héldu sumir að björninn væri unninn en Dalvíkingar gáfust ekki upp og skoruðu 3-2 þegar mjög lítið var eftir af leiknum. Gestirnir reyndu hvað þeir gátu til þess að jafna leikinn en KF vörnin hélt vel.

Bæði lið stóðu sig frábærlega og spiluðu skemmtilegan fótbolta, áttu góð skot á markið og markmennirnir stóðu sig einstaklega vel og vörðu eins og berserkir.