48.fundur Frístundanefndar Fjallabyggðar

Þann 11. júlí var haldinn fundur á vegum Frístundanefndar Fjallabyggðar. Í fundagerð kemur m.a. fram að lagt hafi verið til að samningar yrðu samþykktir varðandi uppbyggingu á Golfvellinum í Skeggjabrekku í Ólafsfirði við Golfklúbb Ólafsfjarðar.

Einnig kemur fram í erindi frá Rauðku ehf og Valló ehf:

Rauðka ehf. og Valló ehf. óska eftir viðræðum við Fjallabyggð um nýjan langtímasamning um rekstur skíðasvæðis í Skarðsdal og aðkomu að byggingu nýs skíðaskála.
Aðstandendur Valló ehf. sjá mikla möguleika í eflingu á skíðasvæðinu, ef unnið er með langtímahagsmuni að leiðarljósi. Til að gera skíðasvæðið í Skarðsdal samkeppnishæft þurfa nokkur atriði að koma til.
Ákveða hvort flytja eigi skíðaskála og neðstu lyftu, malbika þarf veg og bílastæði. Koma upp nýrri lyftu til að tengja Bungulyftu. Þá þarf að byggja nýjan og stærri skíðaskála. Rauðka ehf. lýsir hér með yfir áhuga á að koma að byggingu nýs skíðaskála ef að um semst. Aðstandendur Valló ehf. hafa fullan hug á að standa að þessari uppbyggingu með Fjallabyggð.

Í afgreiðslu bæjarráðs segir meða annars:
“Bæjarráð mun ekki setja sig á móti því að rekstraraðili byggi nýjan skíðaskála, og að tekið verði tillit til fjárfestingar rekstraraðila á svæðinu við framlengingu samnings. Bæjarráð telur rétt að hefja viðræður um nýjan langtímasamning við Valló ehf.
Bæjarráð telur rétt að vísa erindinu hér með til umfjöllunar frístundanefndar og skipulags- og umhverfisnefndar.”

Nefndin óskar eftir því að fá að vita hvort það sé heimilt að gera langtímasamning við Valló ehf. lagalega séð. Hún óskar einnig eftir því að leitað verðir eftir umsögnum frá ÚÍF og skíðafélögunum áður en gengið verður til samninga við Valló ehf. Að lokum telur nefndin það eðlilegast að samningsgerðin verði á forræði bæjarráðs.