Alls sóttu 45 manns um fjórar nýjar stöður sviðstjóra hjá Akureyrarbæ. Ákveðið hefur verið að gengið verði til samninga við Dan J. Brynjarsson um starf sviðsstjóra fjársýslusviðs, Kristin J. Reimarsson um starf sviðsstjóra samfélagssviðs, Höllu Margréti Tryggvadóttur um starf sviðsstjóra stjórnsýslusviðs og Guðríði Friðriksdóttur um starf sviðsstjóra umhverfis- og mannvirkjasviðs.

Lögð verða niður átta störf framkvæmdastjóra deilda hjá Akureyrarbæ en á móti koma fjórar nýjar stöður sviðstjóra sem taka gildi 1. janúar 2017.

Dan Jens Brynjarsson er með Cand. Oecon gráðu í viðskiptafræði með áherslu á fjármál auk MBA gráðu með áherslu á fjármál, stjórnun og stefnumótun. Hann hefur starfað við fjármálastýringu hjá Akureyrarbæ síðan 1988 sem hagsýslustjóri, sviðsstjóri fjármálasviðs, sviðsstjóri stjórnsýslusviðs og sem fjármálastjóri. Kristinn J. Reimarsson er íþróttakennari að mennt og hefur lokið framhaldsnámi í íþróttafræðum ásamt námi í rekstrar- og viðskiptafræði. Kristinn hefur starfað hjá Fjallabyggð síðustu ár og hjá þremur öðrum sveitarfélögum. Halla Margrét Tryggvadóttir er viðskiptafræðingur að mennt. Hún hefur verið starfsmannastjóri Akureyrarbæjar frá árinu 2003. Guðríður Friðriksdóttir  er með BS gráðu í byggingaverkfræði, meistaragráðu í sömu grein ásamt MBA gráðu. Guðríður hefur stýrt Fasteignum Akureyrarbæjar frá árinu 2002.