Á Föstudaginn langa fór fram paramót Sigló Hótels í blaki en mótið er haldið til styrktar strandblaksvellinum á Siglufirði. Mótið fór nú fram í fimmta skipti og mættu 22 pör eða 44 blakarar til leiks og voru þátttakendur á öllum aldri og með mismikla reynslu í blakíþróttinni. Nokkur fjöldi fólks lagði leið sína í íþróttahúsið og skapaðist góð stemmning og sáust oft flott tilþrif.

Mótið fór þannig fram að þrjú og þrjú pör voru saman í liði og var dregið í lið fyrir hverja hrinu. Hvert par spilaði 8 hrinur og var hver hrina upp í 15 stig. Það var mikil spenna undir lokin enda vegleg verðlaun í boði. Veitt voru glæsileg verðlaun fyrir efsta sætið en það voru David og Bára Dögg sem náðu efsta sætinu eftir mikla keppni við nokkur önnur pör. David og Bára fengu bæði glæsilegt gjafabréf (gisting fyrir tvo ásamt morgunverði). Einnig voru dregnir út fullt af happdrættisvinningum og fengu fjölmargir blakarar páskaegg og gjafaöskjur í vinning.

Aðstandendur mótsins vilja þakka öllum fyrir þátttökuna og þeim sem aðstoðuðu okkur við framkvæmdina fyrir hjálpina. Einnig viljum við nota tækifærið og þakka Sigló Hótel, Samkaup á Siglufirði og Ólafsfirði og Siglufjarðar Apóteki fyrir þeirra framlag til mótsins.
Strandblaksnefndin.

Paramót 5