39 brautskráðir frá Menntaskólanum á Tröllaskaga

Í dag brautskráðust 39 nemendur frá Menntaskólanum á Tröllaskaga. Þetta var 23. brautskráningarathöfnin frá stofnun skólans og hafa nú alls 427 nemendur lokið prófi frá skólanum.

Langflestir luku stúdentsprófi af félags- og hugvísindabraut eða nítján nemendur. Næstflest luku stúdentsprófi af kjörnámsbraut eða átta. Þá settu sex nemendur upp hvítu kollana eftir nám á lista- og náttúruvísindabrautum, þrjú af hvorri braut. Fimm útskrifuðust af stúdentsbraut eftir starfsmám og einn nemandi af starfsbraut. Meirihluti útskriftarnema eru fjarnemar eða 34 og voru sjö þeirra viðstödd athöfnina í dag. Þau koma frá fjórtán stöðum á landinu, flest af höfuðborgarsvæðinu og einn er búsettur í Noregi.

Guðrún Júlíana Sigurðardóttir frá Hólmavík er dúx; hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur á stúdentsprófi en einnig fyrir ágætiseinkunn í dönsku, íslensku, spænsku, félagsgreinum, lýðheilsu og stærðfræði. Hörður Ingi Kristjánsson hlaut viðurkenningu fyrir ágætiseinkunn í dönsku, lýðheilsu og tónlistargreinum og Jóhanna Sigurlaug Eiríksdóttir fyrir ágætiseinkunn í stærðfræði. Þá hlaut Oddný Ósk Sigurbergsdóttir viðurkenningu fyrir ágætiseinkunn í listljósmyndun og spænsku og Sara Samúelsdóttir fyrir ágætiseinkunn í spænsku. Einnig hlaut Sigríður Guðrún Hauksdóttir viðurkenningu fyrir ágætiseinkunn í íslensku og spænsku.

Lára Stefánsdóttir skólameistari sagði í ávarpi sínu að breytt heimsmynd í kjölfar heimsfaraldurs hefði kallað á miklar breytingar en fæli einnig í sér ný tækifæri og nýjar lausnir.

Frá þessu var fyrst greint á vef mtr.is.

Mynd með frétt frá mtr.is /GK.