Menntaskólinn á Tröllaskaga brautskráði á vorönn 34 nemendur frá skólanum og þar af voru 24 fjarnemar. Brautskráningin var haldin í sal skólans síðastliðinn laugardag. Í desember útskrifuðust 21, þannig að á skólaárinu útskrifast samtals 55 nemendur. Frá upphafi hafa 299 brautskráðst frá skólanum. Þrettán útskrifuðust af félags- og hugvísindabraut á vorönn, níu af náttúruvísindabraut, fjórir af íþróttabraut – tveir af íþróttasviði og tveir af útivistarsviði, þrír af listabraut – myndlistarsviði, fjórir luku viðbót við starfsnám til stúdentsprófs og einn útskrifaðist af starfsbraut. Nemendur við skólann á vorönn voru 346 en starfsmenn 25.
Lára Stefánsdóttir skólastjóri hvatti nemendur til að einbeita sér að því að vera góðir stjórnendur í eigin lífi þannig að þeim sjálfum og öðrum liði vel og gengi vel.
Dagný Ásgeirsdóttir flutti ávarp nýstúdents.
