30 nemendur brautskráðust frá Menntaskólanum á Tröllaskaga í dag. Alls hafa nú 495 nemendur brautskráðst frá skólanum en þetta er þrettánda starfsár hans.

Stærstur hluti nemenda skólans eru fjarnemar. Flestir nemendur eru búsettir á Höfuðborgarsvæðinu og alltaf eru einhverjir nemar búsettir erlendis. Útskriftin í morgun bar keim af þessu því fimm útskriftarnemar eru búsettir á Norðurlandi og 25 eru fjarnemar, þar af einn búsettur í Danmörku.

Við athöfnina í dag fékk Amalía Þórarinsdóttir viðurkenningu fyrir ágætiseinkunn í íslensku, stærðfræði, lýðheilsu og listgreinum og Anna Brynja Agnarsdóttir fyrir ágætiseinkunn í íslensku, stærðfræði, lýðheilsu og íþróttagreinum. Þá fékk Hafsteinn Máni Guðmundsson viðurkenningu fyrir ágætiseinkunn í spænsku og Stefanía Ósk Eysteinsdóttir fyrir ágætiseinkunn í lýðheilsu.

Amalía Þórarinsdóttir flutti ávarp fyrir hönd nýstúdenta. Hún þakkaði kennurum og nemendum fyrir samveruna og kvaðst þakklát fyrir öll tækifærin sem skólinn hefði veitt henni. Hún nefndi sérstaklega námsferðir til útlanda þar sem hún hefði fengið að kynnast jafnöldrum sínum í framandi löndum og um leið menningu ólíkra þjóða. Með þetta og annað sem hún hefði lært í skólanum í farteskinu væri hún vel undirbúin fyrir framtíðina.

Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir aðstoðarskólameistari stýrði athöfninni í dag og Ave Kara Sillaots lék á píanó.

Heimild: Mtr.is

Ljósmynd: Gísli Kristinsson.