30 ár frá aurskriðunum miklu í Ólafsfirði – sýning í Tjarnarborg

Í dag eru liðin nákvæmlega 30 ár frá aurskriðunum miklu sem voru í Ólafsfirði þann 28. ágúst 1988. Aurskriður féllu úr fjallinu Tindaöxl, sunnan við Ólafsfjörð og ofan í byggðina, einkum á Túngötu og Hlíðarveg. Vegurinn um Ólafsfjarðarmúla lokaðist af skriðuföllum, þá var vegurinn um Lágheiði lokaður tímabundið á þessum tíma vegna vatnaskemmda, en var fljótt opnaður aftur. Mikið mildi þótti að enginn skyldi slasast alvarlega í þessum náttúruhamförum. Fjölmargir bílar skemmdust og miklar eignaskemmdir urðu á húsum. Hættuástandi var lýst yfir í þessum mikla óveðri sem var á svæðinu. Bjarni Grímsson var bæjarstjóri Ólafsfjarðarkaupstaðar á þessum tíma. Talað var um að skriðan hefði verið 80 metra breið og 6 metra há. Almannavernd rýmdi um 50 hús á þessu tímabili.

Eftir flóðin árið 1988 voru grafnir skurðir í laus jarðlög í hlíðinni til þess að ræsa fram grunnvatn og draga með því úr hættu á aurflóðum. Þess má geta að aurskriður féllu einnig niður í bæinn úr hlíðum Tindaaxlar árið 1962.

Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar sýnir nú ljósmyndir frá þessum hörmungum sem dundu á Ólafsfirðinga árið 1988, í Menningarhúsinu Tjarnarborg í Ólafsfirði. Ljósmyndir eru eftir Svavar B. Magnússon sem hann tók af ummerkjum skriðanna og vinnunni við að koma öllu í samt lag.