Ljósmynd: Magnús Rúnar Magnússon

Úthlutanir úr Lóu – nýsköpunarstyrkjum fyrir landsbyggðina hafa nú verið tilkynntar og hljóta 21 verkefni styrk í ár. Verkefnin eru fjölbreytt og eru m.a. á sviði nýsköpunar í matvælavinnslu, uppbyggingu í vistkerfi nýsköpunar og STEAM greina og rannsókna á sviði sjávarfallavirkjana. Þá sýndu umsóknir um styrkina að um land allt er mikill áhugi hvað varðar nýtingu og sköpun verðmæta úr þörungum.

Alls bárust 100 umsóknir um styrki í ár og samtals var tæpu­­­m 100 m.kr. úthlutað til þeirra verkefna sem matshópur um veitingu Lóu nýsköpunarstyrkja taldi skara fram úr. Hlutverk Lóu er að styðja við nýsköpun, eflingu atvinnulífs og verðmætasköpun sem byggir á hugviti, þekkingu og nýrri færni, á forsendum svæða á landsbyggðinni. Styrkirnir veita aukinn slagkraft inn í nýsköpunarverkefni og stuðla að auknu samstarfi um land allt.

„Með nýsköpunarstyrk Lóu stuðlum við að frjórri jarðvegi fyrir nýjar hugmyndir og nýsköpun á landsbyggðinni. Verkefnin sem fá nú styrk koma af öllu landinu og eru virkilega fjölbreytt. Lóa eflir atvinnulíf og verðmætasköpun sem byggir á hugviti á forsendum landssvæðanna sjálfra. Slíkt mun leggja grunn að bjartari von og fjölbreyttari störfum fyrir þau sem vilja hafa aukið val um búsetu,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra nýsköpunar.

Lóa – nýsköpunarstyrkir fyrir landsbyggðina fyrir árið 2022 voru auglýstir í vor og var umsóknarfrestur til 11. maí sl. Matshópur fór yfir allar umsóknir og gerði í kjölfarið tillögur til háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um veitingu styrkja.

Alla styrkina hjá sjá hér.