27 brautskráðir frá Menntaskólanum á Tröllaskaga

Tuttugu og sjö nemendur brautskráðust frá Menntaskólanum á Tröllaskaga í gær. Tíu útskrifuðust af félags- og hugvísindabraut, fimm af náttúruvísindabraut, þrír af íþrótta- og útivistarbraut, tveir af kjörnámsbraut, einn af listabraut, myndlistarsviði og sex af stúdentsbraut að loknu starfsnámi. Tuttugu og þrír af þessum hópi eru fjarnemar sem búa víðsvegar um land og tveir erlendis. Samtals hefur 361 nemandi brautskráðst frá skólanum.

Tanja Dögg Sigurðardóttir flutti ávarp nýstúdents.

Alls voru 442 nemendur skráðir til náms þegar MTR hófst í ágúst. Það eru um 100 fleiri en á haustönn 2019. Í fjarnám voru skráðir 379 og bjó meira en helmingur þeirra á höfuðborgarsvæðinu. Fjölmennasta brautin var félags- og hugvísindabraut með 194 nemendur, 64 nemendur voru á náttúruvísindabraut, 58 á listabraut, 50 á kjörnámsbraut, 35 á íþróttabraut, 19 á grunnmenntabraut og 8 á starfsbraut. Þá voru 17 skráðir á stúdentsbraut að loknu starfsnámi. Sex af nemendum grunnmenntabrautar voru grunnskólanemar. Starfsmenn skólans voru 27 á haustönn.

Vegna faraldursins var fámennt við útskriftarathöfnina en hægt var að fylgjast með í streymi.

Mynd: mtr.is /GK

Heimild: mtr.is