25 Síldarævintýri

Í ár var 25. Síldarævintýrið á Siglufirði haldið, en hátíðin var fyrst haldin árið 1991, og verður því hátíðin 25 ára árið 2016. Í ár voru færri gestir en árið 2014 en þá voru um 5.000 gestir, en í ár er talið að þeir hafi verið um 3.000. Aníta Elefsen rekstrarstjóri Síldarminjasafnsins er ein skipuleggjanda hátíðarinnar, hún segir í samtali við Héðinsfjörð.is að mannfjöldinn á hverju ári stjórnist fyrst og fremst af veðurspá, sem vegur þyngra en góð dagskrá. Veðurfarið á Norðurlandinu hefur ekki verið sérlega hagstæð í sumar.

Aníta telur að barnadagskráin hafi vakið einna mesta lukku í ár, sem og síldarhlaðborðið á sunnudeginum þar sem rúm 40 kíló af síld voru boðin gestum og gangandi auk annars eins skammts af rúgbrauði.

Blaðamaður spurði einnig hvort hátíðin myndi stækka með tilkomu nýs útivistar- og tjaldsvæðis á Leirutanga á Siglufirði sem fyrirhugað er að gera á næstu árum.

“Erfitt er að segja til um það hvort hátíðin stækki með nýju útivistar- og tjaldsvæði á Leirutanga, en það eitt og sér tel ég að muni ekki duga til þess að draga hátíðina aftur á þann stall sem hún var á á árum áður. Nú er mikið framboð af skemmtun og hátíðum um land allt þessa helgi, og samkeppnin um gestina því gríðarlega mikil. Þá er það sömuleiðis kostnaðarsamt að halda slíka hátíð og fá hingað skemmtikrafta og tónlistarmenn – og til þess að hægt sé að bjóða upp á metnaðarfulla dagskrá sem er öðrum stöðum og hátíðum fremri þarf mun meira fjármagn en nú er til staðar.” Þetta sagði Aníta Elefsen í samtali við Héðinsfjörð.is. Við þökkum Anítu fyrir upplýsingarnar.

20052473610_ca535739b3_z