25 milljóna króna framlag í aðgerðaáætlun gegn sjálfsvígum
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að veita 25 milljóna króna framlag til að hrinda í framkvæmd verkefnum sem lögð eru til í aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi. Ráðherra tilkynnti um ákvörðun sína á málþingi sem haldið var í tilefni Alþjóðadags sjálfsvígsforvarna í vikunni. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.
Ráðherra ræddi einnig um fjölgun geðheilsuteyma við heilsugæslustöðvarnar í samstarfi við sveitarfélögin og ákvörðun um að setja slík teymi á fót í þeim landshlutum þar sem þau eru ekki þegar fyrir hendi.
Ráðherra vísaði í ávarpi sínu til skýrslu Embættis landlæknis sem kom út fyrir helgi um sjálfsvígshugsanir og sjálfsvígstilraunir ungs fólks á Íslandi og sagði hana undirstrika mikilvægi þess að unnið sé af fullri alvöru með fyrrnefnda aðgerðaáætlun starfshóps embættisins. Í áætluninni eru lagðar til yfir 50 aðgerðir sem ná meðal annars til almennra samfélagslegra aðgerða eins og að efla uppeldisskilyrði barna, auka geðrækt í skólastarfi og sinna áfengis- og vímuefnaforvörnum, en einnig eru þar lagðar til sértækar aðgerðir sem beinast að tilteknum áhættuhópum: „Ég mun beita mér fyrir því að aðgerðaráætlun starfshópsins verði hrint í framkvæmd. Í því skyni hef ég tekið sérstaka ákvörðun um að 25 milljónir muni renna strax í það mikilvæga verkefni“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Heimild: stjornarrad.is