25 milljóna króna framlag í aðgerðaáætlun gegn sjálfsvígum

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að veita 25 milljóna króna framlag til að hrinda í framkvæmd verkefnum sem lögð eru til í aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi. Ráðherra tilkynnti um ákvörðun sína á málþingi sem haldið var í tilefni Alþjóðadags sjálfsvígsforvarna í vikunni. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.

Í ávarpi sínu ræddi ráðherra um framkvæmd geðheilbrigðisáætlunar til ársins 2020. Hún fjallaði um mikilvægi þess að þjónustan snéri að einstaklingunum, væri samfelld og aðgengileg, bæði inni í skólakerfinu og í heilsugæslunni þar sem auka megi áherslu á þverfaglega samvinnu og aukna þjónustu sálfræðinga: „Búseta má ekki koma í veg fyrir að hægt sé að nýta sér geðheilbrigðisþjónustu og efnahagur má heldur ekki vera hindrun. Geðheilbrigðismálin mega ekki mæta afgangi og eru gríðarlega mikilvægur þáttur í góðu samfélagi“ sagði Svandís meðal annars. Hún ræddi um þá áherslu að gera sálfræðiþjónustu stærri hluta af opinbera heilbrigðiskerfinu með fjölgun sálfræðinga innan heilsugæslunnar. Þegar hafi tekist að tryggja fjárveitingar til allra heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni sem geri kleift að uppfylla markmiðið um eitt stöðugildi sálfræðings fyrir hverja 9.000 íbúa og áformað sé að það markmið náist á höfuðborgarsvæðinu á næsta ári.

Ráðherra ræddi einnig um fjölgun geðheilsuteyma við heilsugæslustöðvarnar í samstarfi við sveitarfélögin og ákvörðun um að setja slík teymi á fót í þeim landshlutum þar sem þau eru ekki þegar fyrir hendi.

Ráðherra vísaði í ávarpi sínu til skýrslu Embættis landlæknis sem kom út fyrir helgi um sjálfsvígshugsanir og sjálfsvígstilraunir ungs fólks á Íslandi og sagði hana undirstrika mikilvægi þess að unnið sé af fullri alvöru með fyrrnefnda aðgerðaáætlun starfshóps embættisins. Í áætluninni eru lagðar til yfir 50 aðgerðir sem ná meðal annars til almennra samfélagslegra aðgerða eins og að efla uppeldisskilyrði barna, auka geðrækt í skólastarfi og sinna áfengis- og vímuefnaforvörnum, en einnig eru þar lagðar til sértækar aðgerðir sem beinast að tilteknum áhættuhópum: „Ég mun beita mér fyrir því að aðgerðaráætlun starfshópsins verði hrint í framkvæmd. Í því skyni hef ég tekið sérstaka ákvörðun um að 25 milljónir muni renna strax í það mikilvæga verkefni“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Heimild: stjornarrad.is