Um síðustu helgi var Fiskidagurinn mikli haldinn í Dalvíkurbyggð.  Lögreglan á Norðurlandi eystra var með mikinn viðbúnað enda stærsti viðburðurinn í umdæminu á ári hverju.  Vegagerðin hefur áætlað að heildarfjöldi einstaklingsheimsókna til Dalvíkur yfir Fiskidagshelgina frá föstudegi til sunnudags hafi verið um 25.000 manns sem er töluvert færra en síðastliðnar Fiskidagshelgar. Þar hefur eflaust spilað inn í stórtónleikar Ed Sheeran í Reykajvík og svo slæm veðurspá fyrir svæðið. Tölur sem Vegagerðin hefur birt áætluðu að 36.000 manns hafi verið á Fiskidögum árið 2018, sem hafi einnig verið fjölmennasta hátíðin fram til þessa.

Lögreglan hefur greint frá því að engin alvarleg mál hafi komið upp en mikill erill var þessa helgi hjá lögreglunni.

Mestur fjöldi fólks kom til að hlusta á tónleikana á laugardagskvöldið á Fiskideginum mikla.  Mikill erill var um kvöldið og fram undir morgun á svæðinu. Ölvun var mikil og þurftu fimm aðilar að gista í fangageymslum sökum ölvunar og óspekta. Þá var öflugt fíkniefnaeftirlit þessa helgi og meðal annars var lögreglan með tvo fíkniefnahunda við vinnu. Forvarnargildi þeirra var mikið en alls komu upp 13 minniháttar fíkniefnamál.

Umferð um helgina gekk vel og var lögreglan með yfirumsjón á umferðarstýringu yfir Fiskidagshelgina.

Mynd frá Lögreglan á Norðurlandi eystra.

Mynd: Fiskidagurinn mikli / Bjarni Eiríksson