23 flóttamenn til Akureyrar

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogsbæjar, Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Akureyrarkaupstaðar og Haraldur Líndal Haraldsson bæjarstjóri Hafnarfjarðarkaupstaðar undirrituðu í gær samninga um móttöku 55 sýrlenskra flóttamanna sem væntanlegir eru til landsins í næsta mánuði.

Undirbúningur að móttöku flóttafólksins hefur staðið yfir um nokkurt skeið í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNCHR). Hópurinn samanstendur af tíu fjölskyldum; 20 fullorðnum einstaklingum og 35 börnum og dvelur fólkið allt í flóttamannabúðum í Líbanon. Af hópnum munu 23 setjast að á Akureyri þar af 14 börn, 17 í Hafnarfirði og 15 í Kópavogi. Akureyrarbær fær 70.491.000 kr. fyrir þá þjónustu sem bærinn mun skaffa flóttamönnunum næstu 2 árin.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir gleðilegt að nú sé komið að því að bjóða flóttafólkið velkomið til landsins: „Ég er þess fullviss að sveitarfélögin og aðrir sem hlutverki hafa að gegna muni gera allt sem í þeirra valdi stendur til að taka sem allra best á móti fólkinu þannig að því geti liðið hér vel og aðlagast íslensku samfélagi. Við landsmenn eigum að sameinast um þetta verkefni og leggja metnað okkar í að gera það sem best.“