Síðasta skemmtiferðaskip sumarsins kom til Siglufjarðar á mánudaginn síðastliðinn, en það var Ocean Majesty, með um 620 farþega og jafnframt stærsta skip sumarsins. Skipið er byggt árið 1965 og siglir undir Portúgölsku flaggi. Ocean Majesty fór í framhaldinu til Akureyrar og stoppaði þar í hálfan dag. Þann 17. ágúst síðastliðinn kom skipið National Geographic Explorer óvænt til Siglufjarðar, en það hafði komið sex sinnum áður í sumar. Í framhaldinu fór skipið til Akureyrar og Grímseyjar.

Alls komu því 22 skip til Siglufjarðar, en hefðu átt að vera 14 fleiri í ár, því litla skemmtiferðaskipið Callisto hætti við að koma vegna bilunar en skipið átti bókaðar 14 ferðir í sumar til Siglufjarðar, en áætlað var að skipið kæmi með 50 farþega í hvert sinn.  Alls komu um 4460 farþegar með skemmtiferðaskipum til Siglufjarðar í sumar.

Sumarið 2016 komu 14 skip og sumarið 2015 komu 19, en töluvert færri skip komu árin á undan. Farið var í mikið markaðsstarf fyrir höfnina á Siglufirði og hefur það skilað sér í fleiri og tíðari skipakomum. Næsta sumar hafa þegar 22 skip bókað komu sína til Siglufjarðar en sú tala getur hæglega orðið stærri þegar líður nær vorinu 2018.