Gistinætur á hótelum á Norðurlandi í mars síðastliðnum voru 19.083 samanborið við mars 2017, þá voru 16.276 gistinætur. Er þetta aukning um 17%.  Á tímabilinu apríl 2017 til mars 2018 voru 308.309 gistinætur á hótelum á Norðurlandi og er það 8% aukning. Herbergjanýting í mars 2018 var 70,1% á öllu landinu, sem er lækkun um 4,3 prósentustig frá mars 2017. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.

Ferðamenn keyptu ríflega 1,9 milljónir gistinátta í gegnum vefsíður á borð við Airbnb árið 2017. Auk þess áttu erlendir ferðamenn um 850 þúsund gistinætur þar sem ekki var greitt sérstaklega fyrir gistingu. Þar af voru gistinætur í bílum utan tjaldsvæða áætlaðar um 520 þúsund á síðasta ári og ríflega 330 þúsund gistinætur hjá vinum og ættingjum, í gegnum húsaskipti eða á öðrum stöðum þar sem ekki var greitt sérstaklega fyrir gistingu. Helmingur gistinátta erlendra ferðamanna árið 2017 var á hótelum og gistiheimilum og um 19% á gististöðum sem miðla gistingu gegnum Airbnb og svipaðar síður. Aðrar gistinætur utan hefðbundinnar gistináttatalningar (s.s. í bílum utan tjaldsvæða eða í húsaskiptum) voru um 8,5% af gistinóttum erlendra ferðamanna árið 2017. Við áætlun á gistinóttum utan hefðbundinnar gistináttatalningar er stuðst við niðurstöður úr landamærarannsókn meðal erlendra ferðamanna sem framkvæmd er í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og gistináttatalningu Hagstofunnar.

Heimild: Hagstofa.is