18 stúdentar útskrifaðir frá MTR

Um helgina voru 18 stúdentar útskrifaðir frá Menntaskólanum á Tröllaskaga við hátíðlega athöfn. Þetta var 15. brautskráningin frá skólanum og hafa nú 178 verið útskrifaðir frá skólanum frá því hann tók til starfa haustið 2010. Athöfnin fór fram í nýjum sal skólans, Hrafnavogum , en áður hafa slíkar athafnir verið í Ólafsfjarðarkirkju eða Menningarhúsinu Tjarnarborg.

Að þessu sinni útskrifuðust níu af félags- og hugvísindabraut, tveir af íþróttabraut, þrír af náttúruvísindabraut, einn af listabraut, einn af kjörnámsbraut með sérhæfingu í viðskiptagreinum og tveir luku viðbót við starfsnám til stúdentsprófs.

Fjöldi fjarnema við skólann hefur aukist jafnt og þétt og hefur skólinn skapað sér sérstöðu á sviði fjarkennslu. Í þessum útskriftarhópi voru 12 af þeim 18 sem útskrifuðust fjarnemar. Voru 4 þeirra viðstaddir útskriftina og voru sumir þeirra að sjá kennara sína í fyrsta sinn. Annað var óvenjulegt við þessa útskrift því að í athöfninni tóku þátt tveir nemendur sem útskrifuðust sem sjúkraliðar frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra við þetta tilefni, eru þeir báðir búsettir í Ólafsfirði og var því þessi háttur hafður á.

Í ræðu aðstoðarskólameistara kom m.a. fram að skólinn hófst þann 18. ágúst og um 350 nemendur stunduðu nám við skólann á haustönninni, þar af voru um 250 nemendur í fjarnámi. Starfsmenn við skólann voru 28 á síðustu önn. Einnig sagði hún frá því að skólinn ætti í góðu samstarfi við ýmsa aðila í nærsamfélaginu og má þar m.a. nefna Tónlistarskólann á Tröllaskaga og ýmsar aðrar menningarstofnanir,  til dæmis Listaháskóla Íslands, Fisktækniskóla Íslands og Símey auk þess sem nýverið var skrifað undir samstarfssamning við Hlíðarfjall á Akureyri.