17. júní í Skagafirði

Dagskráin á Sauðárkróki hefst kl. 10:30 í dag 17. júní, þegar teymt verður undir börnum á Flæðunum við sundlaugina. Andlitsmálun hefst við Skagfirðingabúð kl 11:30 og skrúðgangan fer af stað þaðan kl 12:45 og er gengið á íþróttavöllinn. Hefðbundin hátíðardagskrá verður á íþróttavellinum og skátarnir verða með leiktæki á svæðinu.

Félagar í Alþýðulist halda upp á daginn og verða með heitt á könnunni í húsi félagsins í Varmahlíð. Þá munu þeir einnig sýna ýmiskonar handverk m.a. hvernig spunnið er úr ull og hrosshári.

Nágrannar okkar í Akrahreppi efna til hópferðar á gömlum bílum, 25 ára og eldri, og hefst ferðin kl 10 í Varmahlíð.

Þjóðhátíðarkaffihlaðborð eru auglýst víða, Kaffi Krók, Áskaffi og í Ljósheimum.

Messur í tilefni dagsins eru í Sauðárkrókskirkju, Víðimýrarkirkju og Silfrastaðakirkju og hefjast þær allar kl 11. Í Sauðárkrókskirkju munu félagar úr Pilsaþyt lesa ritningagreinar en félagsskapinn skipar áhugafólk um þjóðbúninga. Mikil aukning hefur verið á notkun þjóðbúninga á undanförnum árum og hvetja félagsmenn Pilsaþyts Skagfirðinga og gesti þeirra til að fagna deginum og búa sig uppá í hátíðar- og þjóðbúninga og mæta í skrúðgönguna á Króknum.

13466225_1726826017600617_8773380361872109640_n