1625 voru á kjörskrá í Fjallabyggð

Í Fjallabyggð voru 1625 á kjörskrá til forsetakosninga í ár, þar af 1001 á Siglufirði og 624 í Ólafsfirði.

Forseti sendi í Guðna Th. Jóhannessyni eftirfarandi bréf þegar úrslit voru orðin opinber:

Bessastöðum 26. júní 2016.Kæri Guðni. Ég óska þér til hamingju með að vera kjörinn forseti Íslands og vona að farsæld fylgi þér í þeim ábyrgðarmiklu störfum sem senn taka við. Það er mikil gæfa að njóta slíks trausts íslenskrar þjóðar og geta með störfum forseta stuðlað að heill hennar og velgengni á komandi árum. Við Dorrit óskum fjölskyldu þinni góðrar tíðar á Bessastöðum. Fegurð staðarins, andi sögunnar og svipmikil náttúra búa daglegu lífi einstæða umgjörð og við vonum að þið hjónin og börn ykkar munið njóta hér góðra stunda. Með bestu óskum um farsæld á nýrri vegferð.“

Æviágrip Guðna:

Guðni Th. Jóhannesson fæddist í Reykjavík 26. júní árið 1968. Hann er sonur hjónanna Margrétar Thorlacius, kennara og blaðamanns, og Jóhannesar Sæmundssonar, íþróttakennara og landsliðsþjálfara, sem lést árið 1983. Guðni ólst upp í Garðabæ og á tvo bræður, Patrek, íþróttafræðing og handboltaþjálfara, og Jóhannes kerfisfræðing.

Guðni útskrifaðist árið 1987 með stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík. Hann stundaði nám í sögu og stjórnmálafræði við Warwick-háskóla á Englandi og útskrifaðist þaðan með BA-gráðu árið 1991. Eftir það lærði hann þýsku við Háskólann í Bonn í Þýskalandi. Hann nam  rússnesku á árunum 1993-1994 við Háskóla Íslands. Guðni útskrifaðist með meistaragráðu í sagnfræði frá HÍ árið 1997. Hann nam sagnfræði á árunum 1998-1999 við Oxford-háskóla á Englandi og útskrifaðist þaðan árið 1999 með MSt-gráðu í sögu. Árið 2003 lauk hann doktorsprófi í sagnfræði frá Queen Mary, University of London.

Guðni er kvæntur Elizu Reid og kynntust þau á námsárum sínum við Oxford-háskóla á Englandi. Eliza er frá Kanada og stundaði nám í nútímasögu í Oxford.  Eliza er með MSt-gráðu frá Oxford-háskóla og BA-gráðu í alþjóðasamskiptum frá Toronto-háskóla. Guðni og Eliza hafa verið búsett hérlendis frá árinu 2003. Þau búa á Seltjarnarnesi ásamt börnum sínum en þau eru Duncan Tindur (f. 2007), Donald Gunnar (f. 2009), Sæþór Peter (f. 2011) og Edda Margrét (f. 2013). Guðni á dótturina Rut (f. 1994) með fyrri eiginkonu sinni, Elínu Haraldsdóttur, viðskiptafræðingi og listakonu.

Guðni er dósent í sagnfræði við Háskóla Íslands. Hann hefur starfað sem kennari við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Bifröst og University of London. Guðni hefur skrifað fjölda sagnfræðirita, meðal annars um sögu þorskastríðanna og forsetaembættið. Þá hefur Guðni skrifað fjölda bóka og fræðigreina um sögu Íslands og samtíð. Má þar nefna ævisögu Gunnars Thoroddsen og bókina Óvinir ríkisins en þær voru báðar tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Þá skrifaði Guðni bókina Völundarhús valdsins um embættistíð Kristjáns Eldjárns og metsöluritið Hrunið.

27287769003_9efc05f516_z 27287767803_1354cd64ed_z 27287765553_d7d5324cfe_z