150 íslenskir safnmenn til Siglufjarðar

Um 150 íslenskir safnmenn og félagar í FÍSOS (Félagi íslenskra safna og safnamanna) munu hittast á Siglufirði á miðvikudaginn næstkomandi og sækja þar árlegan Farskóla safnmanna ásamt því að halda aðalfund. Anita Elefsen hjá Síldarminjasafninu er farskólastjóri en Síldarminjasafnið heldur viðburðinn í ár og hefur verið lögð mikil vinna í undirbúning og skipulagningu fyrir þennan stóra viðburð.

Fjölmargir gestir koma með rútu frá Reykjavík á miðvikudag og halda heim á föstudag þegar dagskrá lýkur. Þrír erlendir fyrirlesarar verða ásamt fjölda innlendra fyrirlesara. Á dagskrá er meðal annars fyrirlestrar, vinnustofur, skoðunarferðir, aðalfundur, árshátíð og margt fleira. Meðal umræðuefna verður : Söfn í stafrænni verlöld; Varðveisla og rannsóknir; Ólíkar leiðir til miðlunar.

Undanfarna áratugi hefur tækniþróun fjölgað möguleikum safna til miðlunar svo um munar. Íslensk söfn hafa tileinkað sér ólíkar og fjölbreyttar leiðir til að miðla þekkingu og fróðleik.