15% færri gistinætur á Norðurlandi í maí

Alls voru 24.189 gistinætur á hótelum á Norðurlandi í maí 2018, en voru 28.377 í maí 2017 sem er lækkun um 15%. Frá júní 2017 til maí 2018 er 3% fjölgun gistinátta á Norðurlandi eða alls 302.886.

Herbergjanýting í maí 2018 var 58,4% á öllu landinu, sem er lækkun um 3,8 prósentustig frá maí 2017 þegar hún var 62,2%. Á sama tíma hefur framboð gistirýmis aukist um 6,4% mælt í fjölda herbergja. Nýtingin í maí var best á Suðurnesjum, eða 74,2%. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.

Gistinætur ferðamanna á öllum gististöðum í maí síðastliðnum voru 725.000, en voru 692.100 í sama mánuði árið áður. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru 430.300, gistinætur í gegnum vefsíður á borð við Airbnb 120.800, og 173.900 á öðrum tegundum gististaða, svo sem farfuglaheimilum, hostelum og íbúðahótelum.

Til viðbótar voru gistinætur erlendra ferðamanna utan hefðbundinna gististaða áætlaðar 52.800 í maí, þar af 26.700 í bílum og 26.100 hjá vinum og ættingjum, í gegnum húsaskipti eða á öðrum stöðum þar sem ekki var greitt sérstaklega fyrir gistingu.

Heimild: hagstofa.is