118 verkefni lögreglunnar á Akureyri um helgina

Um helgina fór fram á Akureyri hátíðin Ak Extreme, sem nú var haldin í 6. sinn. Þetta er snjóbrettahátíð þar sem aðalviðburðurinn er keppni og sýning sem fram fer í Gilinu á háum stökkpalli. Einnig hefur verið boðið upp á ýmsa tónlistarviðburði á Akureyri um helgina. Hátíðin hefur notið vaxandi vinsælda og sífellt fleiri hafa sótt bæinn heim af þessu tilefni. Skemmtanahaldi og mannmergð fylgja þó gjarnan ýmis verkefni fyrir lögregluna og var þessi helgi engin undantekning þar á.

Í dagbók lögreglunnar voru skráð 118 verkefni frá kl. 18:00 á fimmtudegi og til kl 18:00 á sunnudegi. Þau verkefni sem lögreglan fékkst við voru fjölbreytt. Sex tilvik  voru þar sem ökumenn voru kærðir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna, 3 ölvunarakstrar, 3 tilvik þar sem ökumenn voru án ökuréttinda, 2 umferðarslys, 2 umferðaróhöpp án slysa, tvær líkamsárásir, fjögur fíkniefnamál, skemmdarverk, ólöglegur vopnaburður, sturlunarástand vegna fíkniefnaneyslu og nokkur umferðarlagabrot af ýmsu tagi. Átta gistu fangageymslur. Í þessum málum lagði lögreglan hald á talsvert magn af fíkniefnum, bæði kannabisefnum og harðari efnum. 

Þetta kemur fram hjá Lögreglunni á Norðurlandi eystra.