Veturinn 2022-2023 var mjög góður á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli á Akureyri. Tekjur af rekstri svæðisins aukast um á aðra milljón á milli ára og gestir á svæðinu voru liðlega 2.000 fleiri en árið áður. Opið var í 105 daga samanborið við 99 veturinn áður.

Páskarnir í ár voru mjög góðir í Hlíðarfjalli. Þá komu um 9.500 gestir í fjallið og veður var eins og best verður á kosið.

Fjölmörg mót sem áttu að fara fram á öðrum skíðasvæðum voru færð til Hlíðarfjalls enda hélst snjórinn betur þar en víðast annars staðar á skíðasvæðum landsins. Þar fyrir utan gekk snjóframleiðslan vel og voru sjóbyssurnar á fullu í 22 daga þennan vetur en meðaltal fyrri ára er 7-10 dagar.

Nýja stólalyftan, Fjallkonan, var keyrð í 23 daga sem er um það bil fjórðungur af opnunardögum vetrarins í Hlíðarfjalli.

Ennþá er gönguskíðabraut opin í Hlíðarfjalli en nú er verið að undirbúa sumaropnun á skíðasvæðinu fyrir útivistarfólk. Áætlað er að hjólagarður verði opinn frá 12. júlí til 12. september. Á tímabilinu verður hægt að nýta Fjarkann til að koma sér hærra í fjallið en hann mun ganga á fimmtudögum og föstudögum frá kl. 17-21, á laugardögum kl. 10-17 og sunnudögum 10-16. Áætlað er að Fjallkonan verði opin frá 22. júlí til 20. ágúst, samtals fimm helgar á laugardögum og sunnudögum frá kl. 10-15.

Farið verður í umfangsmikla og kostnaðarsama viðhaldsvinnu í sumar, meðal annars við Fjarkann og Fjallkonuna. Einnig verður nýr vír settur í Stromplyftuna, gírabúnaður endurnýjaður í Hjallabraut og svo mætti áfram telja. Þar fyrir utan er tímabært að ráðast í ýmsar framkvæmdir og endurnýjun á húsakosti svæðisins.

Viðamesta framkvæmd sumarsins á skíðasvæðinu er bygging nýrrar vélageymslu, reisulegs stálgrindarhúss, og eru áætluð verklok 2024.

 

Heimild: akureyri.is