10 stiga meðalhiti á Akureyri í ágúst

Tíðarfar í ágúst var talið óhagstætt allvíða um landið norðanvert. Hiti var nærri meðallagi áranna 1961 til 1990 en víðast hvar nokkuð undir meðallagi síðustu tíu ára. Sérlega úrkomusamt var á norðanverðu Austurlandi, sums staðar í útsveitum norðanlands og á Ströndum. Á Akureyri var meðalhitinn 10 stig og er það í meðallagi áranna 1961 til 1990. Meðal hitinn í Grímsey var 8,3 °.  Sérlega úrkomusamt var um landið norðan- og norðaustanvert og metúrkoma á nokkrum stöðvum.

Á Akureyri mældist úrkoman 79,4 mm og er það meira en tvöföld meðalúrkoma í ágústmánuði og sú mesta í ágúst síðan 1992. Litlu minni úrkoma mældist þó í ágúst 2005. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 104,5 og er það 31 stund færri en í meðalári. Færri sólskinsstundir mældust á Akureyri í ágúst 2013.

Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna júní til ágúst 9,1 stig, -0,8 stigum undir meðallagi áranna 1961 til 1990, og -1,8 stigum undir meðalhita síðustu tíu ára. Þessir mánuðir hafa ekki verið kaldari á Akureyri síðan 1993 en þó var nærri því jafnkalt sömu mánuði 1998. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 343 og er það 127 stundum undir meðallagi. Sólskinsstundir hafa ekki verið færri á Akureyri í júní til ágúst síðan 1993 en árið 2005 og 2002 voru þær þó litlu fleiri en nú.

Þetta kemur fram á vedur.is.