Alls hafa 10 knattspyrnufélög skráð sig á Strandarmótið í ár sem haldið verður á Dalvíkurvelli í Dalvíkurbyggð, laugardaginn 16. júlí. Mótið er dagsmót og er fyrir 7.-8. flokk drengja og stúlkna. Alls eru liðin 86 og keppendur 391 sem taka þátt á mótinu í ár. Leikir 8. flokks hefjast klukkan 9:15 og 7. flokkur byrjar svo klukkan 13:00.
Öll lið spila sex leiki á mótinu, óháð fjölda liða í riðli. Það þýðir að þau lið sem eru í 6 liða riðli keppa við sama lið í fyrsta og síðasta leik. Þau lið sem eru í 8 liða riðli keppa ekki við eitt lið í riðlinum og var þá reynt að koma því þannig fyrir að lið frá sama félagi spili ekki við hvort annað.
Allir leikir fara fram á Dalvíkurvelli og verður honum skipt upp í tíu knattspyrnuvelli.
Völlurinn verður jafnframt afgirtur því einungis keppendur, þjálfarar og dómarar mega fara inn á völlinn.  Aðstandendur geta komið sér fyrir umhverfis völlinn og setið í stúkunni og á grasbalanum ofan við völlinn.
Keppendur fá frítt í sund á mótsdag.
Keppendur frá verðlaunapening, þátttökugjöf, grillaða pylsu, drykk og ís að móti loknu.
Mótsgestir greiða aðeins 1000 kr. fyrir hvern fullorðinn fyrir tjaldgistingu á nóttina en börn gista frítt.